2.2.2011
Úr 2 í 22 m/s á einni klukkustund
Það er vel þekkt hversu veður getur skyndilega versnað suðvestanlands þegar afturbeygð skil sunnan við lægðarmiðju færast inn á land um leið og miðjan fer til norðurs eða norðausturs. Meðfylgjandi tunglmynd (frá Dundee) frá því kl. 14:30 sýnir stöðuna sæmilega. Reyndar er skýjasnúðurinn ekki mjög greinilegur, en hann er þarna engu að síður. Það er talsverður "óróleiki" þarna fyrir sunnan og talsverð átök þar sem kalt loft úr vestri þrengir sér undir hlýrra loft sem komið er allan hringinn umhverfis lægðarmiðjuna.ÞAr er marg fleira áhugavert á þessari mynd sem gamanværi að fjalla um, en læt það vera að sinni.
Lægðin er hins vegar farin að grynnast lítið eitt og þá sljákkar um leið í mesta vindinum. Engu að síður er spáð um 25-30 m/s í um 1.000 metra hæð og skv. gamalli reynslu skilar sá vindur sér niður í éljunum. Kannski ekki alveg sem meðalvindur í 10 mínútur, en í nokkurn tíma engu að síður.
Hitt getur líka gerst þó það séu minni líkur en hitt að lægðarmiðjan taki að reka meira til austurs en norðurs, en þá nær vindröstin varla landi annarsstaðar en allra syðst og í Vestmannaeyjum. Sú framvinda er ekki spáin, en ég nefni þetta hér því maður hefur séð slíkt gerast fyrr þegar djúpar og mjög víðáttumiklar lægðir eiga í hlut.
http://esv.blog.is/blog/esv/entry/1139113/
Engin ummæli:
Skrifa ummæli