miðvikudagur, 21. júní 2017

Hægláti heimsmethafinn

22.júní'09 | 08:31
vestmannaeyja Vestmannaeyjabær Heimaklettur
ROKRASS og veðravíti kemur sjálfsagt fyrst í huga Íslendinga þegar þeir heyra nafnið Stórhöfði. Engin furða því þar hefur mælst mestur vindhraði á landinu, einir 67 metrar á sekúndu. Til að útskýra það betur má nefna að helmingurinn af þeirri veðurhæð er ósvikið manndrápsveður og ekki hundi út sigandi.
Tiltölulega þröngur hópur þekkir hinsvegar til Óskars J. Sigurðssonar, mannsins sem gerði það að ævistarfi að taka við vörslu vitans á Stórhöfða af föður sínum og jafnframt að stunda nákvæmar veðurathuganir á þriggja tíma fresti árið út og inn. Þá er ótalið eitt merkasta af mörgum verkefnum Óskars þar uppi í höfðanum, sem er margvíslegar umhverfisrannsóknir, m.a. á eiturefnum í úrkomu sem gefa mikilvægar upplýsingar um manngerða ógn sem steðjar að lífríkinu. Síðast en ekki síst er Óskar einn afkastamesti fuglamerkingamaður landsins, og heimsins (sbr. tilvitnun í Heimsmetabók Guinnes í upphafi myndarinnar), hefur merkt tæplega 90.000 fugla, einkum lunda, fýl og snjótittling, algengustu nágranna þessa mæta náttúruunnanda. Hann er hvergi nærri hættur og kæmi ekki á óvart þó hann nálgaðist 100 þúsund fugla markið áður en hann leggur háf sínum til hlés.
Starfsævi Óskars er orðinn löng og ströng, hann hóf veðurmælingar upp úr miðri síðustu öld og tók við vitvörslu af föður sínum skömmu síðar. Nú stendur hann á merkum tímamótum, hann er að ljúka farsælu ævistarfi sem vitavörður því nú hefur tæknin útrýmt þessari mikilvægu og lífsnauðsynlegu öryggisgæslu. Óskar er að fylla kvótann í árum talið sem opinberir starfsmenn falla undir og þá mun síðasti vitavörður landsins leggja niður störf, en vitinn sjálfur er aldargamall um þessar mundir. Veðurathuganir og fuglamerkingar verða hins vegar áfram í hans höndum svo lengi sem hann sjálfur ákveður.
Nánar í Morgunblaðinu í dag



Engin ummæli:

Skrifa ummæli