Óskar Jakob Sigurðsson, Eyjamaður ársins 2012 að mati Eyjafrétta:
Enginn fróðari um veður og veðurfar í Eyjum
:: - Heimsmeistari í fuglamerkingum og Hetja umhverfisins - Myndband fylgir fréttinni
Óskar Jakob Sigurðsson, sem líklega er betur þekktur sem „Óskar
í Höfðanum“, fæddist í Stórhöfða 19. nóvember 1937. Sonur hjónanna
Bjargar Sveinsdóttur og Sigurðar Jónatanssonar, veður-
athuganamanns
og vitavarðar þar. Jónatan, afi Óskars, var einnig vitavörður í
Stórhöfða og tók við því starfi árið 1910. Vitavararstarfið í
Stórhöfða hefur því gengið í erfiðir í beinan karllegg í rúma öld og
fjórir ættliðir hafa gegnt því. Óskar tók við starfinu árið 1965, lét
af því árið 2008 og þá tók einmitt fjórði ættliðurinn við keflinu,
Pálmi, sonur Óskars.
Óhætt mun að fullyrða að enginn er
fróðari um veður og veðurfar í Vestmannaeyjum á liðinni öld og upphaf
nýrrar aldar en Óskar í Höfðanum. Sannkallaður viskubrunnur á því
sviði og höfum við á Eyjafréttum oftlega leitað þangað eftir
upplýsingum sem ljúflega hafa verið látnar í té.
Og
þá er komið að höfuðáhugamáli Óskars í gegnum tíðina,
fuglamerkingunum, en þær hófust árið 1953. Óskar hefur verið
óþreytandi í því starfi. Hann hefur alls merkt 40 tegundir fugla og
fjöldinn er kominn upp í 91 þúsund. Þar af eru lundarnir flestir en
alls hefur Óskar merkt um 54 þúsund lunda, unga og aldna, á þeim 60
árum sem hann hefur stundað fuglamerkingar. Og hér eigum við Eyjamenn
heimsmethafa, því að enginn einn maður í veröldinni hefur merkt fleiri
fugla en Óskar. Það var staðfest árið 1997 í Heimsmetaskrá Guinnes
þar sem nafn Óskars var skráð.
Það er ekki aðeins
á sviði fuglanna sem Óskar hefur látið að sér kveða í sambandi við
náttúrulíf og umhverfi. Árið 2007 var hann heiðraður sem „Hetja
umhverfisins“ af sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi fyrir störf við
kolefnismælingar og loftmælingar sem hann innti af hendi fyrir
bandaríska rannsóknastofnun, NOOA, og stendur fyrir Nationa Oceanic and
Atmospheric Administration. Þær mælingar Óskars hafa staðið yfir í um
20 ár sleitulaust og standa enn.
Óskar fagnaði
75 ára afmæli sínu í nóvember síðastliðnum, með hógværð og lítillæti
eins og hans hefur ævinlega verið háttur. Hann afþakkaði gjafir en tók
við frjálsum framlögum veislugesta og afhenti síðan Krabbameinsfélagi
Íslands það fé.
Enginn Eyjamaður hefur lagt
meira af mörkum á lífsleiðinni til náttúrulífs og umhverfismála en
Óskar Jakob Sigurðsson, Óskar í Höfðanum. Hann er því einkar vel að
þessari viðurkenningu kominn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli