Innlent
| mbl
| 9.10.2009
| 13:30
| Uppfært
13:53
Ónæðissöm nótt á Stórhöfða
Nóttin var með þeim ónæðissamari á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Undir morgun var meðalvindur þar vel yfir 40 m/s og vindhviður um og yfir 50 m/s lengi nætur. Veðrið er nú aðeins byrjað að ganga niður, að sögn Óskars J. Sigurðssonar veðurathugunarmanns og vitavarðar.„Það hefur löngum loðað við mann að sofa lítið þegar er orðið þetta hvasst. Það hefur alltaf verið svoleiðis frá því ég man fyrst eftir mér,“ sagði Óskar. Hann sagði að meðan vindstyrkur var mældur í hnútum hafi hann farið að óa við veðrinu þegar það fór yfir 80 hnúta, það samsvarar 41,16 m/s. Í morgun fór vindurinn í 87 hnúta eða tæpa 45 m/s þegar mest gekk á.
Óskar býr í Stórhöfða ásamt Pálma Frey syni sínum og veðurathugunarmanni. Pálmi hefur bloggað um þetta aftaka veður á bloggi sínu og sýnir þar myndir af vindmælinum. En fara þeir út að lesa af mælum í svona veðri?
„Nei, ekki í svona veðri. Maður er ekki svo samviskusamur,“ sagði Óskar.
Veðrið var aðeins byrjað að ganga niður, en hægt. Vindur á Stórhöfða var 38 m/s kl. 13 og mesti vindur í hviðum var 47 m/s.
Óskar sagði að sér fyndist minna hafa verið um svona aftakaveður hin síðari ár. Þau hafi komið oftar fyrr á árum. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á það á bloggi sínu að fara þurfi allt aftur til ársins 1992 til að finna sambærilegan vind á Stórhöfða og nú. Þá mældist þar 45,8 m/s þann 24. febrúar. Metið var slegið 3. febrúar 1991 þegar þar mældist 56,6 m/s vindur.
Óskar sagðist einhvern tíma hafa fundið út að yfir veturinn kæmu þrjú veður þegar vindur færi í 80 hnúta (41,16 m/s). Það hafi verið mun fátíðara í seinni tíð.
Óskar sagði mjög hvasst hafi verið í allan gærdag. Í gærkvöldi fór svo að bæta í veðrið heldur betur og eftir miðnætti hafi vindur farið yfir 30 m/s. Í Vestmannaeyjabæ var einnig mjög hvasst og þar fór sterkasta hviðan í 46 m/s. Þá hefur rignt mikið í Vestmannaeyjum í nótt og var úrkoman í Surtsey 6 mm á klukkustund í morgun.
Óskar vissi ekki til að neinar skemmdir hafi orðið á húsum á Stórhöfða. Hann sagði það bjarga að hviðurnar séu ekki svo snöggar á Höfðanum.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/10/09/onaedissom_nott_a_storhofda/
Engin ummæli:
Skrifa ummæli