miðvikudagur, 1. febrúar 2017

Fimmtudagur 02. feb 2012 kl. 15:16

Yfirleitt logn á Stórhöfða að undanförnu


Þeir sem leggja við hlustir þegar útvarpað er frá Veðurstofu Íslands kl. 10.10  á morgnana, hafa tekið eftir því að nú að undanförnu hefur  yfirleitt verið logn á Stórhöfða. - Ekki þar fyrir að oft er jú logn á Stórhöfða , -  en þegar rokhvasst er í Vestmannaeyjabæ, en logn á Stórhöfða, - er eitthvað skrítið að gerast. Óskar Sigurðsson í Stórhöfðavitanum, þar sem veðrið er tekið, sagði að á þessu væri einföld skýring: Sjálfvirki vindmælirinn er bilaður og hefur verið lengi, hann sendi því þau skilaboð  til  Veðurstofunnar að logn sé á Stórhöfða.
Sú veðurlýsing sé því oft lesin í útvarpinu, hver svo sem ástæðan fyrir því er. Veðurstofan veit af þessari bilun en hefur enn engan fræðing sent á Stórhöfða til laga mælinn. Óskar segir að þessir nútímamælar endist stutt núorðið. En á þriggja tíma fresti sendi hann eða sonur hans, sem er tekinn við hlutverki veðurathugunarmanns  í Stórhöfða,  skeyti til Veðurstofunnar um veðrið, en þá verði þeir að  áætla vindstyrkinn vegna bilunarinnar en vindstefnumælirinn sé hinsvegar í lagi. En þau skeyti séu ekki alltaf notuð í veðurlýsingunni kl. 10.10, - því hafi oft verið logn á Stórhöfða að undanförnu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli