Óskar á Stórhöfða hefur merkt 61 þúsund fugla Vestmannaeyjum. Alþjóðafugladagurinn var um síðustu helgi og var af því tilefni boðið upp á ókeypis aðgang að Náttúrugripasafninu í Eyjum.
Óskar á Stórhöfða hefur merkt 61 þúsund fugla Vestmannaeyjum. Alþjóðafugladagurinn var um síðustu helgi og var af því tilefni boðið upp á ókeypis aðgang að Náttúrugripasafninu í Eyjum. Tveir áhugamenn um fuglamerkingar, Óskar Sigurðsson vitavörður á Stórhöfða og Sigurgeir Sigurðsson, voru á safninu og svöruðu fyrirspurnum gesta um starf sitt við merkingar og röktu hvar fuglar sem þeir hafa merkt hafa fundist. Þeir Óskar og Sigurgeir eru afkastamiklir merkingamenn, því Óskar hefur merkt 61.000 fugla og Sigurgeir 15.500 fugla.
Á Náttúrugripasafninu var sett upp kort sem sýndi ferðaleiðir fugla sem merktir hafa verið í Eyjum. Mest hefur verið merkt af lunda og lundapysjum í Eyjum og virðist sem pysjan fari héðan til Nýfundnalands og haldi sig þar í tvö ár áður en hún kemur til Eyja á ný. Einnig hafa verið merktar skrofur og fýlar auk ýmissa mófugla. Skrofa sem Sigurgeir merkti fannst til dæmis á Nýfundnalandi og önnur sem Jóhann Óli Hilmarsson merkti í Ystakletti árið 1991 kom fram í janúar í ár syðst í Brasilíu, í 10.840 kílómetra fjarlægð frá Eyjum.
Kristján Egilsson safnvörður Náttúrugripasafnsins sagði í samtali við Morgunblaðið að Óskar Sigurðsson væri líklega afkastamesti merkingamaður lunda í heiminum. Hann hefði merkt 43.000 lunda og pysjur, og 17.000 fýla og 1.000 fugla af öðrum tegundum. Óskar hefur bæði merkt lunda sem hann veiðir í háf, unga sem hann hefur merkt í hreiðri og svo lundapysjur sem fundist hafa í bænum. Í haust setti Óskar met í merkingu lundapysja, en þá merkti hann 1.336 pysjur og fann sonur hans, Pálmi, þær flestar í bænum.
Aldraðir lundar
Af merkingum Óskars má sjá að lundinn getur náð talsvert háum aldri. Lundi sem hann merkti sem unga í holu 28. ágúst 1960 fann Óskar í holu 4. júlí á síðasta ári, 31 ári eftir að hann merkti lundann.
Sigurgeir Sigurðsson hefur mest merkt af pysju sem fundist hefur í bænum og í haust merkti hann 410 pysjur og voru það þrír krakkar sem söfnuðu pysjunum sem Sigurgeir merkti. Sigurgeir hefur í allt merkt 14.000 lundapysjur, mest pysjur sem fundist hafa í bænum, og 1.500 mófugla, mest tjald, stelk og sandlóu. Þeir mófuglar sem hann hefur merkt hafa margir fundist á Bretlandi og í Frakklandi.
Kristján sagði að merktir fuglar frá tíu löndum hefðu fundist í Eyjum til þessa og flestir væru þeir frá löndum í Evrópu.
Grímur
Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson
Merkismenn
ÓSKAR Sigurðsson fuglamerkingamaður og Pálmi sonur hans, en Óskar fræddi gesti Náttúrugripasafnsins um fuglamerkingar og ferðalög fugla um heiminn.