15. febrúar 1998 | Sunnudagsblað | 515 orð
ÐÞykir vænt um lundann
Á ÍSLANDI hefur verið merkt meira af lunda en víðast hvar annars staðar í heiminum og er það ekki síst að þakka Óskari J. Sigurðssyni, vitaverði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Óskar hóf fuglamerkingar árið 1953 og hefur merkt alls um 47 þúsund lunda, um 17 þúsund fýla og minna af öðrum tegundum.
ÐÞykir vænt um lundannÁ ÍSLANDI hefur verið merkt meira af lunda en víðast hvar annars staðar í heiminum og er það ekki síst að þakka Óskari J. Sigurðssyni, vitaverði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Óskar hóf fuglamerkingar árið 1953 og hefur merkt alls um 47 þúsund lunda, um 17 þúsund fýla og minna af öðrum tegundum.
Óskar segir að af endurheimtum á merktum lundum megi ráða að lundapysjurnar fari héðan að hausti til Nýfundalands og haldi sig við ströndina þar frá því í október og fram undir áramót. "Svo hverfur lundinn og það eru hér um bil engar endurheimtur á ársgömlum fuglum," sagði Óskar. Hann segir að veiðst hafi lundi við Vestur-Grænland um miðjan desember, sem merktur var í Flatey á Breiðafirði átján árum fyrr. Það hafi þótt tíðindum sæta og mjög óvanalegt.
Langförulir lundar
Lundar merktir í Vestmannaeyjum hafa margir endurheimst í Faxaflóa og á Breiðafirði. Utan lands má nefna Lófót í Noregi og töluvert marga lunda í Færeyjum. Ein pysja á 1. ári fannst í Biskayaflóa í Frakklandi og einn fullorðinn á Azoreyjum. Þá hafa veiðst hér lundar merktir í Skotlandi. Ungfuglinn virðist flækjast víða áður en hann verður kynþroska, fimm ára.
Líklegast er talið að fuglinn haldi sig fyrsta árið langt úti á hafinu suðvestan Íslands og Grænlands. Sumarið sem lundinn er á þriðja ári kemur hann aftur hingað til lands og yfirleitt í byrjun júlí. Ekki er vitað hvað lundinn getur orðið gamall en elsti lundi sem endurheimst hefur hér var að minnsta kosti 35 ára gamall.
Pysjan fer þegar hún vill
Aðspurður sagði Óskar það vel geta verið að lundapörin haldi tryggð alla ævi. Honum finnst það styðja þessa kenningu að einu sinni náði hann tveimur lundum í sömu holu og merkti. Löngu seinna, að hann minnir eftir ellefu ár, náði hann sömu lundum saman í holu á sömu slóðum.
Því hefur verið haldið fram að lundinn hætti að bera æti í pysjuna þegar hún er fullvaxta og svelti hana til að fara að heiman. Óskar segist aldrei hafa trúað þessu né séð þessi merki að pysjan sé svelt. "Ég þykist vera búinn að sjá að hún fari þegar hún er fullgerð," sagði Óskar. "Hafi maður tekið að sér pysju sem er eitthvað vanþroska fer hún að óróast þegar hún er fullgerð. Það er innbyggt."
Óskar taldi að pysjan hefði verið seinni til í fyrrasumar og lélegri en oft áður. Hann sagði þetta ekkert nýtt. En hvað um það að ungfuglinn hafi ekki skilað sér? "Ég held að þegar lítið er um æti þá vanti ungfuglinn, mér hefur alltaf sýnst það vera þannig," sagði Óskar. "Ég held að það hljóti að vera sílið sem bregst. Það getur alveg orðið gott næst, þetta þarf ekki að vera varanlegt."
Óskar segir að sér þyki vænt um lundann. En veiðir hann sér til matar? "Já, mér finnst ekkert betra að láta aðra drepa hann fyrir mig. En ekki finnst mér það skemmtilegt," sagði Óskar.
Morgunblaðið/RAX ÓSKAR J. Sigurðsson, vitavörður á Stórhöfða, með merkingartöngina. Hann er búinn að merkja 47 þúsund lunda, 17 þúsund fýla auk annarra tegunda, frá því hann byrjaði fuglamerkingar 1953.
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/383069/
Engin ummæli:
Skrifa ummæli