þriðjudagur, 13. september 2016



Mesta veðrið gengið yfir í Vest­manna­eyj­um

Hluti af þaki fauk af húsi við Strandveg í Vestmannaeyjum ...
Hluti af þaki fauk af húsi við Strand­veg í Vest­manna­eyj­um og lenti á bíl, sem tal­inn er ónýt­ur.Eyja­f­rétt­ir/​Sæþór
Veður hef­ur held­ur lægt í Vest­manna­eyj­um en ennþá geng­ur á með mjög snörp­um hviðum. Björg­un­arlið hef­ur náð að festa niður það sem eft­ir er af þaki Ímexhúss­ins og tína sam­an mesta brakið í miðbæn­um. Þá er verið að ljúka við að binda niður þakið á kaffi Kró. Vind­hraðinn á Stór­höfða fór mest í 43 metra á sek­úndu rétt eft­ir klukk­an 15 og mest­ur var meðal­vind­hraðinn 32 metr­ar á sek­úndu.
Óskar J. Sig­urðsson, vita­vörður í Stór­höfða, sagði við Eyja­f­rétt­ir að norðan­átt­in væri byljótt í Vest­manna­eyj­um og sagði hann að frek­ar væri um bylgj­ur að ræða en vind­hviður. Þegar bylgj­urn­ar ríða yfir fell­ur loft­vog­inn sem nem­ur nokkr­um milli­bör­um. „Það sér maður á lof­vog­inni sem er sír­iti og kem­ur eins og vaff í lín­una þegar mest geng­ur á,“ sagði Óskar.
Veðrið núna er ekki ósvipað norðan­bál­inu sem gekk yfir 7. októ­ber sl. en þá mæld­ist mesti vind­h­arði á Stór­höfða sá sami, eða rétt tæp­ir 43 metr­ar á sek­úndu sem eru um 14 vindstig á gamla skal­an­um. „Það heyr­ist tals­vert í veðrinu hér en það eru ekki þess­ar snörpu bylgj­ur eins og niðri í bæ,“ sagði Óskar þegar hann var spurður um veður­ham­inn á Stór­höfða sem er 121 metri og er syðsti hluti Heima­eyj­ar. Mesti vind­hraði mæld­ist þar í fe­brú­ar 1991 og fór þá yfir 60 metra á sek­úndu og öldu­hæð var 29 metr­ar.


http://www.mbl.is/frettir/innlent/2004/10/18/mesta_vedrid_gengid_yfir_i_vestmannaeyjum/

Engin ummæli:

Skrifa ummæli