19. september 2004 | Innlendar fréttir | 3293 orð | 4 myndir
Stórhöfðinn er hans heimur
Óskar J. Sigurðsson á Stórhöfða í Vestmannaeyjum er vitavörður, veðurathugunarmaður og heimsmeistari í fuglamerkingum. Guðni Einarsson blaðamaður og Sigurgeir Jónasson ljósmyndari heimsóttu Óskar í Stórhöfða.
Ég er bókstaflega fæddur hér á Stórhöfða," segir Óskar Jakob Sigurðsson, vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, sem kom í heiminn 19. nóvember 1937. "Stundum hef ég gantast með að ég sé heimskastur af öllum - í bókstaflegri merkingu frumnorrænni. Hef aldrei flutt neitt. Fermingarsystkini mín hafa öll flutt að minnsta kosti einu sinni - öll nema ég."
Fjórar kynslóðir í karllegg
Stórhöfðaviti er syðsti mannabústaður Íslands og útvörður fyrir opnu hafi. Vitinn, sem var reistur 1906, er fyrsta mannvirkið sem sögur fara af uppi á Stórhöfða og eitt af elstu steinhúsum landsins.
Afi Óskars, Jónathan Jónsson, tók við starfi vitavarðar 1910 og fluttist á Stórhöfða ásamt konu sinni Guðfinnu Þórðardóttur og börnum þeirra. Jónathan tók við af Guðmundi Ögmundssyni, sem var fyrsti vitavörðurinn á Höfðanum. Guðmundur var afi Guðmundar Kristjánssonar bifreiðastjóra og ökukennara, sem kenndi Óskari vitaverði á bíl fyrir nærri hálfri öld.
Þau Jónathan og Guðfinna voru ættuð úr Mýrdalnum. Elst barna þeirra var Sigurður, faðir Óskars. Svo komu Gunnar, Sigríður og Hjalti, sem fæddist sama ár og fjölskyldan fluttist á Stórhöfða.
"Pabbi ólst að hluta til upp hér," segir Óskar. "Hann var tólf ára þegar þau fluttu á Stórhöfða og var þá búinn að eiga heima í Reykjavík í tvö ár. Pabbi gekk tvo vetur í Barnaskóla Reykjavíkur." Óskari þykir skrítið að hugsa til þess að einkunnabækur föður hans úr Barnaskóla Reykjavíkur séu að verða aldargamlar.
Bræðurnir Sigurður og Gunnar Jónathanssynir hjálpuðu föður sínum við veðurathuganir og vitavörsluna eftir því sem tök voru á. Sigurður flutti um tíma niður í Vestmannaeyjakaupstað og vann í fiskimjölsverksmiðju. Hann sneri aftur á Höfðann og tók formlega við vitavörslunni og veðurathugunum af föður sínum árið 1935.
Óskar fór snemma að aðstoða Sigurð föður sinn við veðurathuganir. Á yngri árum vann Óskar við fiskvinnslu í Fiskiðjunni en hætti þar fyrir réttum 40 árum. Stórhöfði er það sem kallast mönnuð skeytastöð, en á slíkum stöðvum eru gerðar fleiri og ítarlegri veðurathuganir en á öðrum veðurstöðvum. Fyrsta verkefni Óskars við veðurathuganirnar var að athuga veðrið kl. 03.00.
"Maður er oft búinn að taka veðrið klukkan þrjú að nóttu," segir Óskar hugsi. "Ég gerðist formlega veðurathugunarmaður árið 1952 og hef verið við þetta síðan. Veðrið er tekið á þriggja tíma fresti, alla daga ársins. Þetta er skráð í bækur og send skeyti til Veðurstofunnar. Nú færir maður inn í tölvu og sendir þannig. Ég hef verið hér einn langtímum saman, en ég mæli ekki með því. Það verður ekki mikið um samfelldan svefn. Þetta eru ekki heilsusamlegir lífshættir." Óskar hefur verið með margar vekjaraklukkur sem stilltar eru til að hringja á ýmsum tímum sólarhringsins. En skyldi hann aldrei hafa sofið yfir sig?
"Ég neita því ekki að hafa einhvern tímann sofið af mér. Ef ég hef gleymt að stilla klukku þá vaknar maður við vondan draum og undrast þennan langa svefn. Kannski klukkutíma fram yfir tímann!"
Tvisvar á sólarhring, klukkan 9.00 að morgni og 18.00 síðdegis, er gerð stór athugun og athugaðir fleiri veðurþættir en á öðrum tímum sólarhringsins.
"Það er enginn hægðarleikur að meta ölduhæð úr 120 metra hæð," segir Óskar. Á árum áður voru veðurskip suður í hafi, Alpha og India, sem gáfu upp ölduhæð. Nú hjálpar öldudufl austan við Surtsey Óskari að meta ölduhæðina. "Mér er sagt að það sé að marka það," segir Óskar um reynslu sjómanna af duflinu.
Óskar tók formlega við starfi vitavarðar á Stórhöfða árið 1965. Nú er Pálmi sonur hans, fjórði ættliður vitavarða í beinan karllegg, farinn að aðstoða föður sinn við veðurathuganir og vitavörslu.
Lífið á Stórhöfða
Þegar Óskar var að alast upp var stundaður smábúskapur á Stórhöfða og áður einnig róið til fiskjar úr Höfðavíkinni. Hjalti, föðurbróðir Óskars, sagði í samtali við Morgunblaðið að sér væri minnisstætt er hann og Gunnar bróðir hans reru úr Höfðavík. Þeir höfðu aðstöðu í landi í litlu húsi fyrir veiðarfæri og annað sem þurfti til róðranna. Róið var á sumrin á skektu, veitt á handfæri og fiskurinn saltaður. Eins var lundinn nytjaður, en veiðirétturinn tilheyrði bændum á Heimaey. Heimaey var skipt í veiðisvæði og var Stórhöfði eitt þeirra. Þurftu þau á Stórhöfða, líkt og aðrir tómthúsmenn, að afla sér veiðileyfis hjá bændum. "Það var gaman að vera á Stórhöfða og mikið um að vera kringum lundann," sagði Hjalti. Óskari er minnisstætt að faðir hans og Gunnar föðurbróðir voru seigir við veiðiskapinn.
Óskar segir að lengi hafi verið búið með eina kú og nokkrar kindur á Stórhöfða, en hvorki hesta né hænsn svo hann muni. Kúabúskapurinn lagðist af um 1960. Óskar hefur lengi verið með kindur og á nokkrar skjátur enn. Hann segir búskapinn vera að leggjast af og kindurnar að úreldast af sjálfu sér. Hann hefur ekki hleypt til ánna undanfarin ár, því hann hefur ekki kært sig um að fá lömb. Sonurinn hefur ekki áhuga á umstanginu sem fylgir því að sinna fé og því er búskapnum sjálfhætt. "Stundum hafa komið lömb sem ég átti ekki von á. Það hafa stolist hingað hrútar á óæskilegum tíma," segir Óskar.
Bestu ár ævinnar
Í seinni heimsstyrjöldinni settu Bretar upp eftirlitsstöð á Stórhöfða, síðan tóku Kanadamenn við og síðast Bandaríkjamenn sem reistu þar 10-12 bragga.
"Bretarnir voru fyrst hér í íbúðarhúsinu og fengu herbergi undir vitanum. Það var annaðhvort að útvega þeim pláss eða að þeir tækju það sjálfir," segir Óskar. "Það var sett varðskýli hér við hliðið og mátti enginn koma í heimsókn til okkar nema við tækjum ábyrgð á honum. Gestir voru sóttir út að hliði og fylgt hér inn. Það mátti enginn fara suðurfyrir húsið og ekki upp í vitann. Þeir voru með eitthvert hernaðarleyndarmál hér fyrir sunnan, líklega radar. Foreldrar mínir voru með fjós fyrir sunnan húsið og máttu náðarsamlegast fara þangað." Óskar var þó undanþeginn slíkum reglum og valsaði um allt að vild.
"Í mínum huga eru þetta bestu ár ævinnar. Það voru kvikmyndasýningar og boðið upp á ávexti - hér í fásinninu. Bandaríkjamennirnir höfðu nóg af öllu, en það var knappara hjá Bretunum. Í stærsta bragganum var eldhús og borðsalur. Við eignuðumst skálann eftir stríð og hann stóð til 1991 að hann eyðilagðist í mikla rokinu hinn 3. febrúar það ár. Þá voru uppundir 130 hnútar í verstu hviðunum (240 km/klst. eða nærri 67 m/sek). Vindmælirinn mældi ekki nema 120 hnúta og hikaði þar. Fór ekki ofar. Þetta var eitt mesta veður sem hér hefur gengið yfir."
Miklar tækniframfarir vita
Þegar Óskar var að alast upp og fyrst eftir að hann tók við starfi vitavarðar var ströndin vörðuð mönnuðum vitum. Vitarnir standa flestir enn en fæstir mannaðir í dag. Sjálfvirkur búnaður hefur víða leyst mannshöndina af hólmi. Segist Óskar vera einn eftir samkvæmt gömlum ráðningarsamningi vitavarða.
"Ég er síðasti vitavörðurinn í fullu starfi á landinu sem býr í vitanum," segir Óskar. "Á Dalatanga er jafnmikil veðurathugun og hér og þau sjá einnig um vitann. Þau eru á nýjum samningi en ég er sá síðasti eftir gamla fyrirkomulaginu. Svo er fullt af mönnum sem hafa eftirlit með vitum, jafnvel mörgum, án þess að búa í þeim." Óskar segist hafa orðið hissa þegar starf vitavarðar á Horni var lagt af, þar hafi verið mikilvægur útvörður. Eins finnst honum slæmt að starf veðurathugunarmanna á Hveravöllum verði lagt niður.
"Fyrst eftir að vitinn var reistur var olíulampi í honum. Það var heilmikil passasemi í kringum lampann. Mátti ekki vera of lítið ljós og heldur ekki of mikið, því þá fór loginn að ósa og glerið sortnaði," segir Óskar. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fyrstu tilraunir gerðar til að rafvæða vitann. Sett var upp vindorkustöð sem hlóð rafgeyma. "Það var hellingur af rafgeymum og ég hafði gaman af að horfa á þegar fór að sjóða á geymunum," segir Óskar. "Vindmyllan gafst illa, hún þoldi ekki veðrin. Það var alltaf bras og bilerí."
Næsta tækniframför fólst í bensínknúinni rafstöð sem hlóð geymana. Vitavörðurinn þurfti enn sem fyrr að kveikja á vitanum þegar rökkvaði og slökkva eftir birtingu. Nú sér sjálfvirkur ljósnemi um það. Díselknúin rafstöð kom árið 1956 og segir Óskar að hún hafi verið áreiðanlegri en bensínmótorinn og mikil framför. Árið eftir var bætt um betur þegar komu tvær Deutz-ljósavélar. "Þær voru mjög gangvissar og hægt að skipta á milli vélanna eftir þörfum. Þetta var þá orðið nokkuð gott," segir Óskar.
Veiturafmagn náði ekki á Stórhöfða fyrr en 1979. "Það tók á annað ár að koma strengnum seinasta kílómetrann," segir Óskar og þótti honum það heldur mikill hægagangur. Löngu áður en rafmagnið náði upp í Stórhöfða var búið að leggja fjarskiptastreng yfir Atlantshafið, sem kemur á land í Höfðavík, rétt neðan við Stórhöfða.
Óskar segir það hafa verið mikla framför að fá veiturafmagnið. "Þá þurfti ekkert lengur að hugsa um ljósavélarnar. Og kyrrðin sem ríkti þegar maður losnaði við hávaðann! Þess betra sem veðrið var, því hærri var dynurinn í ljósavélunum. Þótt vélar séu gangvissar, þá geta þær bilað. Mér þótti óþægilegt að vakna við að ljósavélin var hætt að ganga. Allt orðið rafmagnslaust! Manni brá við það."
Óskar segir framtíð vitavarðar á Stórhöfða mjög óljósa. Þróunin hefur verið sú að leggja af búsetu í vitum og veðurathuganir eru víða orðnar sjálfvirkar. Það gefur þó ákveðnar vonir um að áfram verði þörf fyrir starfsfólk á Stórhöfða að þar hefur verið komið fyrir ýmsum mælitækjum sem þarfnast eftirlits. Þar á meðal eru síur sem notaðar eru til rannsókna á mengun í andrúmslofti. Þá er safnað andrúmslofti á geyma sem sendir eru til Bandaríkjanna til rannsókna. Eins er safnað regnvatni sem sent er til rannsókna í Noregi. "Maður veit ekki neitt um framtíðina, en í bili styrkir þetta staðinn. Það sem vísindamenn sjá við Stórhöfða er hvað hann er mikið fyrir opnu hafi," segir Óskar.
Heimsmetshafi í merkingum
Óskar hóf að merkja fugla árið 1953 og hefur merkt að meðaltali 1.594 fugla á hverju ári síðan. Óskar heldur nákvæmt bókhald yfir merkingarnar, fjölda fugla, tegundir og númer merkja. Hinn 31. desember síðastliðinn stóð talningin í 81.281 fugli og í byrjun júní hafði Óskar merkt um 400 fugla frá áramótum. Miðað við stöðuna í árslok 2003 var langmest af lunda eða 53.386 fuglar, því næst komu 19.157 fýlar. Alls hefur Óskar merkt fugla af 40 tegundum, raunar aðeins einn einstakling af nokkrum eins og turtildúfu, múrsvölungi, gráhegra, glóbrystingi og branduglu. Gjarnan hefur verið komið með fágæta fugla til Óskars til merkingar, stundum af skipum þar sem fuglarnir hafa leitað skjóls og hvíldar.
"Það er langsniðugast að veiða og sleppa eins og ég geri," segir Óskar. "Ég er svolítið á undan öðrum hvað þetta varðar í fuglaveiðinni, þótt þeir hafi stundað þetta í laxveiðinni."
Óskar hefur verið ötull og áhugasamur við þessa óvenjulegu tómstundaiðju. "Ég var einu sinni talinn heimsins mesti fuglamerkingamaður, miðað við fjölda fugla," segir Óskar hógvær. "Þá voru fuglarnir 67 þúsund talsins, en nú eru þeir orðnir tæplega 82 þúsund."
Langförulir lundar
Óskar hefur venjulega byrjað lundamerkingarnar í júnímánuði og sótt lunda í holur. "Það hefur stöku sinni verið góð veiði í háf í júní. Þá hefur maður frið meðan veiðigarparnir eru ekki mættir. Þeir koma stundvíslega 1. júlí. Þá er eldri geldfuglinn kominn, en yngri geldfuglinn kemur um miðjan júlí."
Óskar segir hægt að lesa aldur af nefi lunda með nokkurri nákvæmni þar til fuglinn nær fimm ára aldri og verður kynþroska. Eftir það sé erfiðara að aldursgreina eftir nefinu. Merkin eru þó óyggjandi heimild um aldur, sérstaklega ef fuglinn hefur verið merktur sem ungi. Því er hægt að greina nákvæmlega hvernig t.d. nef lundans þroskast með aldrinum og eins hægt að ákvarða varpaldur fuglanna. Óskar segir að lundinn verði yfirleitt kynþroska fimm ára gamall. Það komi heim og saman við þá vitneskju að langmest er veitt af ókynþroska fugli.
"Hann hættir þessu hringsóli þegar hann verður kynþroska," segir Óskar. "Þeir eru í mestri hættu þriggja ára, ef miðað er við veiðina."
Óskar segir að langmest endurheimtist af lunda sem hann hefur merkt í Vestmannaeyjum, Mýrdal og við vesturströnd landsins. Milli 30 og 40 merktar lundapysjur hafa endurheimst við Nýfundnaland á fyrsta hausti. Ekki er langt síðan sett var nýtt met í aldri endurheimts merkts lunda.
"Það var fugl sem ég merkti fullorðinn hér í Stórhöfða og veiddist 36 árum síðar í Elliðaey. Hann var að minnsta kosti tveggja ára þegar hann var merktur og því minnst 38 ára þegar hann veiddist. Hefur líklega átt heima í Elliðaey, en verið að skoða sig um hérna þegar hann var fangaður og merktur."
Óskar segir að lundarnir séu afskaplega staðbundnir. "Ég hef merkt mikið af lundapysjum sem láta glepjast af ljósunum í kaupstaðnum, og yfirgnæfandi hluti þeirra veiðist síðar í norðurfjöllunum: Heimakletti, Klifi og Ystakletti. Ég tók líka pysjur úr holum hér í Stórhöfða og merkti. Þær komu hingað aftur á miðpunkt alheimsins, eins og merkin sönnuðu."
Höfðinn hefur verið vinsæll til lundaveiða og segir Óskar að Ragnar heitinn Helgason lögregluþjónn hafi verið duglegur við veiðarnar. Ragnar lá jafnvel við í tjaldi á Höfðanum um veiðitímann. Ragnar skilaði flestum merkjum allra veiðimanna og urðu þau á áttunda hundrað. Óskar segir að Ragnar hafi gjarnan komið með lundana í heilu lagi með merkinu á. Það hafi komið sér vel þegar verið var að safna árgöngum af lundum fyrir Náttúrufræðistofnun.
"Fjarlægasta endurheimta á lunda sem ég hef merkt var á Madeira, beint í suður héðan," segir Óskar. "Það var pysja sem fannst þar sjórekin á fyrsta vetri. Það er afskaplega mikil tilviljun að fugl skuli finnast þannig, eins þegar fannst sjórekin merkt pysja við Biskayaflóa."
Óskar segir að svo virðist sem Stórhöfðalundinn fari aðallega suðvestur í haf til vetrardvalar. Einn lundi, merktur á Stórhöfða, endurheimtist þó við Röst í Lófóten. Óskar telur líklegt að hann hafi átt þar heima, en komið við á Stórhöfða á ferðalagi. Vitað er að norskir lundar eru við norðausturland á veturna. Nokkrir lundar, sem merktir hafa verið í Vestmannaeyjum, hafa veiðst í Færeyjum.
Fýllinn fer víða
Fýllinn er þeirrar náttúru að spúa daunillu lýsi sér til varnar. Óskar hefur fengið sinn skammt af fýlaspýju við merkingarnar.
"Ja, ekki vantar viljann hjá honum," segir Óskar. "Ég hef orðið fyrir skoti. Þeir eru varasamastir sem ekki æla þegar þeir lenda í háfnum. Þá láta þeir það fara þegar verst á stendur. Það er gaman að veiða fýl þegar hann er vel við. Einu sinni fór ég eftir að hafa tekið sex-veðrið (kl. 6.00 að morgni) að veiða fýl og merkja. Þegar ég skaust hér heim til að taka níu-veðrið var ég búinn að merkja hundrað fýla. Það er með því mesta sem ég hef lent í."
Færeyingar veiða fýl, jafnt unga og fullorðna, bæði við Færeyjar og víða á hafinu. Frá þeim hefur borist fjöldi merkja frá ýmsum stöðum.
"Fýllinn virðist vera flakkari og engin regla á hans ferðum. Það er ekkert langt síðan það veiddist merktur fýll í desembermánuði við Svalbarða. Annar veiddist á Flæmingjagrunni og þarna eru á fimmta þúsund kílómetra á milli. Báðir voru merktir fullorðnir hér á Stórhöfða."
Þægilegustu merkingarnar
Óskar hafði aðallega merkt snjótittlinga frá áramótum, þegar hann var heimsóttur í byrjun júní. Hann sagðist hafa náð einni ágætri helgi í janúar þegar hann merkti um 250 fugla. Síðustu viku síðasta árs, frá jóladegi til gamlársdags, merkti hann um 500 fugla á sjö dögum. "Ég er nýbyrjaður að merkja snjótittlinga og sé eftir að hafa ekki byrjað á því fyrir löngu," segir Óskar. "Um tíma voru margir að merkja snjótittlinga víða um land. Það hefði verið gaman að sjá hvort maður hefði ekki fengið eitthvað merkt frá þeim. Það er kostur við snjótittlingana, þegar maður er orðinn svona gamall, að þeir koma heim til manns."
Óskar útbjó sér fuglagildrur úr hænsnaneti sem hann veiðir snjótittlingana í. Gildrurnar eru hugvitssamlega gerðar, ekki ósvipaðar krabbagildrum. "Ég var mörg ár að hugsa þetta áður en ég smíðaði gildru," segir Óskar. Hann er með tvær til skiptanna. Óskar laðar fuglana að gildrunum með fóðri.
"Ég er svo lúmskur að ég dreifi hveitikorni fyrir utan, en maískorni inni í gildrunni. Þeim þykir það betra og fara í gildruna." Óskar hefur merkt á þriðja hundrað snjótittlinga á einum degi, þegar flestir hafa látið tælast af maísnum. "Það er þægilegt að geta farið inn með gildruna og merkt fuglana þar. Sumir láta sér ekki segjast og einn kom níu sinnum í gildru á sama tímabili. Svo kemur hláka og þá hverfa allir fuglarnir. Með næsta snjó kemur nýr hópur."
Óskar segir að því miður, fyrir snjótittlingamerkingarnar, hafi varla komið vetur í tvö ár og næstum enginn snjór. Fuglarnir kunna þó vel að meta fóðrið sem hann gefur þeim og þegar blaðamenn höfðu viðdvöl á Stórhöfða voru þar gæfar sólskríkjur að gæða sér á maískorni, en gildrurnar voru ekki í notkun.
Í vetur sem leið náðist snjótittlingur í Hollandi, sem Óskar merkti á Stórhöfða í fyrrasumar sem unga. Snjótittlingur merktur í Hollandi hefur fundist hér á landi, svo þetta voru kaup kaups. Óskar segir að merktir snjótittlingar hafi einnig fundist í Skotlandi. Óskari hefur hlotnast ýmis heiður fyrir störf sín við veðurathuganir, vitavöslu og ekki síst ötult sjálfboðastarf í þágu fuglarannsókna. Hann var m.a. sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu 17. júní 1997, kjörinn heiðursfélagi í Rotarýklúbbi Vestmannaeyja 1993-4 fyrir fuglamerkingar og náttúruskoðun, Bjargveiðimenn í Vestmannaeyjum heiðruðu hann 1989 og Sjómannadagsráð Vestmannaeyja heiðraði hann 1986.
Gamlar slóðir í nýju ljósi
Í fyrrasumar fóru Óskar og Pálmi sonur hans í siglingu kringum Stórhöfðann og nokkrar suðureyjar Vestmannaeyja með þeim Ágústi Halldórssyni húsasmíðameistara og verslunarmanni og Sigurgeiri Jónassyni ljósmyndara. Þeir komu við í Álsey, en Ágúst og Sigurgeir teljast báðir til Álseyinga, veiðifélags sem stundar lundaveiðar í Álsey og á þar veiðihús. Ágúst þekkir Óskar ágætlega í gegnum rollustúss og fleira. Í spjalli við blaðamann dró Ágúst upp meitlaða lýsingu af Óskari þegar hann sagði: "Höfðinn er hans heimur." Óskar hefur haft suðureyjarnar og Höfðann fyrir augum alla sína ævi, en kom margt á óvart í ferðinni.
"Ég hef ekki komið í Álsey fyrr en í fyrra og aldrei í Suðurey, þótt hún sé ekki nema í eins og hálfs kílómetra fjarlægð héðan. Ég get þó stært mig af því að hafa komið í Surtsey. Finnur Guðmundsson fuglafræðingur átti leið þangað fyrir 35 árum og ég fékk að fara með. Við flugum í Surtsey."
Í siglingunni í fyrrasumar var skoðaður hver krókur og kimi Stórhöfðans, meira að segja siglt í gegnum Höfðann á einum stað. Þeir skoðuðu hina litskrúðugu sjávarhella Fjós og Litlu-Fjós, komu að Sölvaflá og víðar.
"Það var siglt í ýmsar skvompur og í gegnum Útsuðursnefið. Það hef ég aldrei gert áður - og kominn tími til," segir Óskar. "Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að Surtsey er nákvæmlega eins uppbyggð og Stórhöfði. Það hefur verið ríkjandi austanátt þegar Stórhöfði myndaðist, líkt og Surtsey. Hraun að austanverðu og móberg að vestan. Gjóskan leitaði undan vindinum til vesturs og varð að móbergi. Þegar fóru að renna hraun runnu þau til austurs."
Alltaf verið veðurhræddur
Stórhöfðaviti stendur í 120 metra hæð yfir sjó og á það eflaust sinn þátt í að þar vill verða næðingssamara en á flestum öðrum byggðum bólum. Óskar var feginn blíðunni sem gældi við menn og málleysingja þegar blaðamenn ónáðuðu hann í júníbyrjun. Þá var nýkomið hægviðri eftir linnulausan átta vindstiga beljanda sem stóð í viku. En hvernig skyldi vera að búa þarna á Höfðanum þar sem mælast sterkari vindar og langstæðari en víðast hvar annars staðar?
"Ég hef alltaf verið veðurhræddur - verð að flokka það svo. Ég sef illa og hef varann á mér þegar vond eru veður. Þá er líka komið yfir 40 metra á sekúndu og má lítið út af bera. Það er spenna í loftinu. Hérna er þetta svo viðvarandi, stendur lengi. Maður man eftir langvarandi mjög sterkum vindum, meira en 30 metrum á sekúndu. Austanáttin er sterkust og oft svo langdregin. Það er ótrúlegt hvað æsist upp í austanáttinni. Það verður allt vitlaust!"
Óskar segir að norðanáttin sé gjarnan nöpur á veturna og fylgi henni strekkingsvindur, hins vegar er hún venjulega hlýjust átta á sumrin. En hvað með sumarið?
"Vorið er fyrst til mín, en svo fara aðrir staðir framúr. Það verður oft lítið úr sumri. Það er fulllítill munur á árstíðum hér." Óskar segir ólíkt betra að vera veðurathugunarmaður á sumrin, þegar veður eru góð, en í stormum og myrkri vetrarins. Það sé oft erfitt. "Það er innri togstreita í mér með sumarfríið. Sumarið er besti tíminn til að fara og besti tíminn til að vera."
gudni@mbl.is
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/819277/
Engin ummæli:
Skrifa ummæli